29 ára

Mitt á milli valentínusardagsins og konudagsins átti lítill strákur afmæli. Sem hefur aldrei verið eitthvað ótrúlega mikið afmælisbarn og sjaldan gert mikið úr þessum degi. Á því var lítil breyting í ár nema ég áttaði mig á því að ég er ekki unglingur lengur. Ég er orðinn ógeðslega miðaldra.

Ég byrjaði daginn á því að vakna klukkan 6:30 til að elda eða baka rúllutertubrauð handa samstarfsfólki mínu á skrifstofunni sem ég vinn á. Síðan fór ég í jakkaföt og setti á mig bindi og fór út í morguntraffíkina og hlustaði á hljóðbók á leiðinni til vinnu.

Í vinnunni ráðlagði ég ungu fólki hversu mikilvægt það væri að vera með líf- og sjúkdómatryggingar, sérstaklega á þessum síðustu og verstu. Rannveig systir hringdi í mig og óskaði mér til hamingju með daginn og sögðust ætla að gefa mér það sem ég bað um í afmælisgjöf. “Jess”, hrópaði ég og krepptan hnefann á lofti. Hvað var það eina sem ég bað um í afmælisgjöf, spyrja margir. Auðvitað Lumie Bodyclock náttlampa frá Eirberg.

Mest miðaldra gjöf sem nokkur maður hefur nokkurn tíma fengið. Ég tek það fram að þetta er ekki #ad fyrir Eirberg heldur vill það bara þannig til að þeir selja þennan lampa og eru með útibú rétt hjá vinnunni minni. En Eirberg er fyrir þá sem ekki vita búð með allskonar fyrir aumingja, aumingja sem kunna ekki að labba venjulega, heilsukodda fyrir aumingja með lélegt bak og svo náttlampa sem kveikir hægt og rólega á sér á morgnana til að aumingjar geti vaknað vel endurnærðir og hressir og skemmtilegir.

Ég sem sé keypti mér lampann og sendi síðan bara rukkun á systur mínar sem lögðu inná mig. Svoleiðis fær maður afmælisgjafir frá fólki útá landi.

Eftir vinnu fór ég síðan á Kringlukránna með strákunum í vinnunni og við fengum okkur einn kaldan í tilefni dagsins á meðan við ræddum um vátryggingar og pílagrímsferðina okkar til Dublin í næsta mánuði.

Fólkið í vinnunni spurði mig hvort ég ætlaði ekki að halda uppá daginn og halda partý eða kíkja jafnvel niður í bæ. “Nei og amen”, sagði ég “Ég ætla að grilla nautakjöt með vinunum og fá mér rauðvín, fara svo í rúmið snemma því ég get ekki beðið eftir að vakna við nýja lampann minn.”

Sem er nákvæmlega það sem ég gerði. Fyrir utan það að vakna við lampann. Hann virkaði ekki. Ég reikna með að sofa töluvert yfir mig í komandi viku svona á meðan ég venst þessum óvenjulegu og nýstárlegu breytingum í lífinu mínu.

Til að bæta það upp hvað ég er orðinn asnalega miðaldra gaf mamma mér SICK BMW regnjakka sem ég mun nota talsvert á næstu misserum. Mér finnst óþolandi þegar fólk á ekki jakka eða derhúfu merkta bílunum sínum. Nú vantar mér bara derhúfuna og í raun belti líka, þannig að þið sem voruð ekki búin að finna neina gjöf getið græjað það á kallinn.

Að vera 29 ára er eins ómerkilegt og það gerist og í raun er öllum drullusama og mér líka. Þetta væri skellur ef ég væri kona því konur eldast auðvitað hraðar og verr og eggjunum þeirra fer að fækka og brjóstin þeirra síga í átt að handakrikunum ef þær liggja á bakinu um og eftir þrítugt.

En þrátt fyrir að vera orðinn mjög miðaldra er ég samt ennþá barn inni í mér sem pantar Cher bara pizzu þegar ég nenni ekki að elda og ég vaki oft frameftir til að horfa á sjónvarpið og ég skrifa ennþá “Cher” í staðinn fyrir “sér”  og segi brandara um tippi og kúk og mér finnst prump ennþá fyndið.

En lífið er ekki bara barnaskapur og inn á milli þarf ég að vera fullorðinn og selja tryggingar og nota stór orð eins og “deiliskipulag” og “nefskattur”, borga reikninga og passa litlu frænku og frænda og kaupa neyðarpilluna handa kisunum mínum og taka til og elda mat og mæta í vinnu og taka til aftur því ég er stundum búinn að henda fötum á gólfið og síðast en ekki síst,

andskotast til að vakna við nýja náttlampann minn.

Leave a Reply