Gamalt fólk skiptir engu máli

old.jpegNú þegar prófkjöri er lokið og kosningar framundan, þá eru allir á listum flokkana einstaklega vingjarnlegir. En ég sé í gegnum þetta fólk. Þetta eru flest allt blóðsugur sem eru tilbúin að pokatotta hvern einasta landsmann fyrir atkvæði.

Ræður frambjóðenda renna saman í eitt suð fyrir mér og á tímum prófkjörs og kosninga er landið eins og eitt helvítis býflugnabú. Það lofa allir öllu fögru en um leið og þau fá atkvæðin sín heyrist ekkert frá þeim nema fokkjú very næs og fariði til helvíts.

Ég ætla ekki að verða neitt mikið pólitískari en þetta í dag en það er eitt málefni sem ég vil taka fyrir sem ég hef ekki séð á stefnuskrám þeirra flokka sem ég hef skoðað síðustu daga og það eru málefni aldraðra.
Ef það er minnst á aldraðra á þessum listum þá hef ég einfaldlega misst af þeim en mér er sama því ég vil ekki bara sjá þau þar heldur þarf að tækla þessi mál, ekki bara tala um þau.

Ég hef oft verið kallaður síðasti vinur gamla fólksins og sá vinskapur er mér kær.

Það sem við þurfum að átta okkur á er að eini munurinn á þér og gömlu fólki er tími. Og tími er óhjákvæmilegur, ergo þú verður gamall/gömul.
Tja, nema þú drepist fyrir aldur fram og þá er eins gott að þú sért búin/n að gera erfðaskrá svo ættingjar þínir vita hver má fá sjónvarpið þitt.

Það er eins og þegar fólk er orðið 55-60 ára þá hætti það að skipta máli fyrir ykkur mörgum. Ég man til dæmis eftir því fyrir nokkrum árum þegar gömul hjón voru stíuð í sundur og send á sitthvort dvalarheimilið sökum plássleysis eða einhvers álíka kjaftæðis. Ég hef töluvert mikið að gera í lífinu og hef ekki náð að fylgja því eftir hvort þessi mál hafa verið græjuð.

Tölum aðeins um ellilífeyrinn og tímabilið eftir fyrstu 67 árin. Ég hef ekki hugmynd um hvað gamalt fólk er að fá á mánuði þegar það er komið á eftirlaun en það er ekki mikið. Vissulega er það mjög misjafn enda fólk misvel launað í gegnum lífið. Eitt er ljóst að þau eru ekki að drukkna í seðlum. Og þau einmitt nota seðla töluvert ennþá því þau treysta ekki tölvum.

Af hverju fá eldri borgarar alltaf einhvern helvítis “eldri borgara afslátt” hér og þar? Þetta er oftast einhver 5-25% afsláttur og það er djöfulsins kjaftæði. Þau eiga að fá frítt í þetta allt saman!
Ókeypis í sund*, strætó, bíó, taxa, tannlæknis, sálfræðings, paintball og til læknis.

*Undantekningin er gamalt fólk sem ætlar að synda í lauginni en er bara fljótandi um eins og helvítis marglyttur. Þau eiga að borga í sund og helst bara vera heima.

Eina fólkið í samfélaginu sem sýnir gömlu fólki virðingu eru strætóbílstjórar en þeir bíða með að keyra af stað fyrr en gamla fólkið er sest niður. Nema strætóbílstjórinn sé frá gömlu Sovétríkjunum (eins og margir af bílstjórum Strætó virðast vera) því að they don’t give a fuck og drulla sér strax af stað sama hvað þú ert gamall.

Ég persónulega hef mjög gaman af því þegar þeir bruna af stað þegar börn og unglingar standa enn. Ég elska að sjá þau hamra andlitinu á sér í járnstangirnar, sem standa um allan vagninn líkt og rimlahlið í fangelsi, og fá blóðnasir í kjölfarið. Gamalt fólk hefur unnið fyrir því að menn keyri ekki strax af stað enda eru þau flest öll með beinþynningu og gerviliðamót um allan líkamann, en unglingarnir verða að vinna fyrir respect in the streets.

Síðan er eitt annað stórt vandamál hjá landsmönnum mörgum og það er gífurlega einfalt að laga.

Mér er drullusama hvað þú vinnur við og hvað það er mikið að gera hjá þér, hvað þú átt mörg börn og hvað það er erfitt að reka heimilið þitt.

DRULLASTU til að heimsækja aldraða foreldra þína og ömmu þína og afa!

Mamma þín hefði geta fóstureytt þér eins og þú hefðir líklegast átt skilið en hún gaf þér sénsinn og þú getur ekki heimsótt hana í einn helvítis kaffibolla af því að þú ert svo upptekin/nn?

Ef þú og þínir eldri ættingjar búið landshornana á milli þá bara hringiru í þau eða jafnvel kennir þeim á Skype. Þegar ég bjó erlendis þá var ömmu bara kennt á Skype svo við gætum spjallað. Það þurfti vissulega að tattúvera leiðbeiningarnar á handlegginn á henni til að hún gæti lært það en það hafðist að lokum.

Ég get bara talað fyrir sjálfan mig en ef ég eignast nokkur börn og þau eignast svo sín eigin börn og ef að hvorki börnin mín né barnabörnin mín koma að heimsækja mig í ellinni þá mæti ég með eina afsagaða og minni þau á að fóstureyðing hefði verið ókeypis, annað en það að ala upp þeirra ofdekruðu rassgöt í 18 ár+, svo ekki sé nú minnst á alla draumana mína sem þau drápu með því einu að vera til.

Það er gífurlega mikilvægt að heimsækja gamla fólkið sitt því að þau kunna ekki á neina tækni og geta ekkert verið að horfa á Netflix og vera í Playstation og þess vegna leiðist þeim mjög mikið á daginn.
Línuleg dagskrá RÚV byrjar ekki fyrr en uppúr 16:00 á daginn og það er ekki eins og þau geti borgað vel á annan tug þúsunda fyrir stöð 2 og enska boltann fyrir helvítis klinkið sem þau fá í ellilífeyri. Þau geta ekki öll stundað hreyfingu því það er búið að skipta um hné, mjaðmir og olnboga í þeim mörgum.

Það eina sem þau geta gert er að lesa bók og fá sér kaffibolla þannig að þú skalt vera til fokking staðar þegar það þarf að fara að ná í nýjar bækur á bókasafnið eða ef þeim vantar einhvern til að spjalla við yfir kaffinu.

Ps. Hvað varðar ökuréttindi gamals fólks að þá get ég ekki kvittað undir að þau eigi rétt á sér og mæli ég með að þau verði öll svipt við ellilífeyrisaldur. Þau keyra einfaldlega alltof hægt.

Reyndu að sinna eldra fólkinu þínu líkt og það sinnti þér og sinnir enn, þrátt fyrir að þú hafir verið þeim bölvaður Þrándur í götu alla ævi og ekki rættist úr þér meira en raun ber vitni.

Leave a Reply