Þú ert að fara að drulla þér í stand

success.jpegNú er sumarið að lenda á landinu á morgun. Það er farið að glitta í sólina og flestir landsmenn eru komnir með bóndabrúnku eftir síðustu daga. Mjög margir klikkuðu á því í janúar að drulla sér í sumarköttið og eru ennþá með bumbuna yfir beltið núna og margir sem ég þekki er umsvifalaust vísað úr sundlaugum landsins. Þar á meðal mér. Ég fór í sund um daginn og þá sagði afgreiðsludaman að mér væru öll sund lokuð því ég væri hreinlega ekki í standi. En ég er búinn að vera svolítið á afsökunar-vagninum og er því ekki að keyra inn í sumarið í toppstandi.
En þá er bara um að gera að drulla sér í stand einn, tveir og Geir og ég ætla að deila með þér nokkrum leyndarmálum sem engin segir þér nema ég. Ef þú fylgir þessum 8 ráðum í einu og öllu þá verðuru orðinn eins og ungur og lifandi Paul Walker ef þú ert strákur og eins og Jessica Alba í Into the Blue, ef þú ert stelpa.

1. Byrjaðu á því að halda kjafti

Það er mjög mikilvægt þegar fólk ætlar að drulla sér í stand að byrja á því að steinhalda sér saman. Fólk byrjar alltaf að grenja yfir því hvað allt er erfitt og að þau séu svo feit og ekki í formi. Ég mæli með að fólk skrifi allt þetta væl á miða og stingi honum síðan lengst uppí rassgatið á sér og tali aldrei upphátt um það sem á honum stóð.
Top 1 hlutur sem fólk vill minnst í heiminum er að hlusta á þig grenja.

Þið sem montið ykkur síðan af ykkar hreyfingu eigið líka að fylgja þessu ráði. Það er öllum sama um hvað þið eruð dugleg.

Allir að muna að halda kjafti.

2. Hættu að reykja

Hættu að reykja núna! Það er ógeðslegt að reykja og þú ert aumingi ef þú reykir. Ef þú reykir ekki þá skaltu byrja að reykja og hætta svo strax aftur. Það sýnir þér hvað það er létt að hætta og kennir þér mikilvæga lexíu um sjáfsaga. Ég hef hætt milljón sinnum að reykja, ég geri það á hverjum degi. Það er það léttasta í heiminum, maður fær sér bara ekki sígó. End.Of.Story.

Ps. Engin sem reykir hefur verið í góðu formi í heiminum og flestir eru látnir.

3. Kauptu prótein fyrir allan peninginn sem þú eyddir áður í sígó

Það er mjög mikilvægt að hesthúsa í sig miklu magni af próteini ef menn ætla sér í stand í sumar. Mjög margir koma til mín og spurja mig hvað það eigi að borða mikið af próteini á dag og svarið er einfalt; mjög mikið. Mundu að ef þú ert ekki að borða prótein núna, þá ertu sennilega búinn að bæta á þig 50 kílóum síðan þú byrjaðir að lesa þennan pistil.
Og stelpur, eitt egg er ekki máltíð. Hænur verpa eggjum í heilum máltíðum svo að þú ert að fara að úða í þig 5-9 eggjum í hvert skipti sem þig langar í egg. Ef þú gerir það ekki færðu beinþynningu og deyrð.

4. Brauð er fyrir börn sem eiga lata foreldra. Og aumingja

Það er löngu orðið ljóst að allir sem borða brauð eru top 3 verstu manneskjurnar. Brauð er fullt af hveiti og sykri og svo er krabbamein í því. Þegar þú kemur heim eftir vinnu þá ertu EKKI að fara að úða í þig brauði eins og hömlulausa svínið sem þú ert.
Ef þú borðar brauð þá springur rassgatið á þér stuttu seinna þegar þú niðurgangar á þig útaf því að brauð er svo mikið drasl. Brauð er fyrir börn sem eiga foreldra sem nenna ekki að hugsa um þau lengur af því að þau vilja bara spila tölvuspil en ekki horfa á Útsvar með foreldrum sínum og svo er það mikið borðað á kaffistofum landsins þar sem aumingjar sem nenntu ekki að koma með nesti úða í sig brauði með remúlaði rétt áður en það þarf að skutla þeim uppí líkhús því þeir eru dauðir.

5. Æfðu eins og goddamn machine

Róm var ekki byggð á einum degi og göngutúr skilaði engum í sundlaugarhæft form. Drullaðu þér í ræktina 6x í viku og lyftu þyngstu lóðunum í klukkutíma og farðu svo heim að elda nautakjöt.
Ef þú ferð í Zumba, göngutúr, stigavélina eða út að ýta barnavagni þá ertu að fitna meira en þú ert að grennast. Ég gerði á sínum tíma rannsókn um 75 konur sem stunduðu Zumba og þær eru allar búnar að bæta á sig 90 kg og eru flestar í hjólastól í dag sökum offitu.
Og ef langhlaup væru góð fyrir þig, hvers vegna eru þá allir fótboltamenn að liðast í sundur úr hori og grenja yfir allri snertingu? Á meðan er handboltamenn byggðir eins og GODDAMN MACHINES! Nema hornamenn, þeir eru eins og úrbeinaðir kettlingar.

6. Gefðu þessu tíma

Þú bættir þessum 50 aukakílóum ekki á þig á einni viku þannig að ekki búast við því að losna við þau á einni viku. Þú ert búin/n að vera að úða í þig kleinuhringjum og berneasie sósu síðan þú varst í leikskóla og nú er kominn tími á að þú takir upp veskið og vinsamlegast borgir fyrir það. Þú þarft að vera þolinmóð/ur og mátt aldrei gefast upp. Ef þú gefst upp, þá skaltu hringja í besta vin þinn og láta hann lesa yfir hausamótunum á þér svo þú drullist í stand aftur sem fyrst. Your mama didn’t raise no quitter svo þú skalt ekki voga þér að valda henni vonbrigðum. Eða Þrándur í götu, ekki heldur vera hann.

7. Kauptu þér föt sem eru of lítil

Það vita það allir að þú ert fátæk/ur og að þú getur ekki verið að kaupa þér föt í hverjum mánuði. Nema þú sért tískubloggari. En þá ertu líka nú þegar orðin mjög grönn/grannur. Þannig að ég mæli með að þú kaupir þér föt í stærð medium ef þú notar stærra en það í dag en ef þú notar medium nú þegar þá ertu að fara að henda í extra small. Þegar þú ert búin/n að kaupa þér of lítil föt þá áttu ekki pening fyrir stórum fötum og þá ertu að fara að DRULLAST í stand. Ekkert í þessum heimi er betri motivator heldur en hræðslan við að passa ekki í nein föt og þurfa að vera nakin/n offitusjúklingur á leiðinni í Zumba.

8. Ekki hlusta á The haters

Okei tölum bara mannamál. Það eru mjög margir sem hata þig og þeir munu gera allt til að þér mistakist. Þú ert að fara að taka nokkur sokkapör með þér í vinnuna og síðan ætlaru að troða þeim í kokið á mannapanum sem vogar sér að hata þig. Þú ert on a goddamn mission to a swimmingpool bödy og mér er eiginlega alveg drullusama þó að vinur þinn sé að halda afmæli eða innflutningspartý og bjóði uppá pizzu. Vinur þinn er strengjabrúða Satans og vill sjá þig misstíga þig og brenna í helvíti. Mættu með kjöt í plastboxi og próteinshake og ef að einhver vogar sér að kalla þig aumingja fyrir það þá skaltu minna hann á ráð númer 1 og eyða honum/henni af Facebook.

Ef þú fylgir þessum ráðum þá ætti þér að vera hleypt í sund ekki seinna en 1. júlí. Ég veit að ég verð orðinn leyfilegur, verður þú?

success.jpeg

Leave a Reply