Án LÍN

Í fyrsta Danmerkur blogginu mínu lofaði ég að updeita ykkur um ástandið hjá mér þegar ég myndi flytja um áramótin. Hér er það.

“Þú ættir ekki að vera að væla yfir svona tittlingaskít! Það eru börn í Afríku sem hafa það 100-sinnum verra en þú!”

Þetta sagði mamma alltaf við mig áður en hún lamdi mig ef ég vogaði mér að kvarta yfir ýmsum hlutum sem barn. Hún minnti mig á það að það væri alltaf einhver þarna úti sem hefði það verra en ég.
Ég reyndar man ekki alveg hvort það hafi verið mamma mín frekar en mamma einhvers vinar míns, því mamma mín var yfirleitt í vinnunni og talaði ekki mikið við okkur börnin.
En ég vissi það þó alltaf að alveg sama hvað ég hefði það slæmt þá væru millijónir manna í Afríku sem hefðu það verr, ég gæti nú huggað mig við það.
Núna er öldin önnur og það eru ekki lengur milljónir manna heldur í mesta lagi handfylli af fólki sem hefur það verr en ég.

Ef þú býrð í þróunarlöndum fjær og átt engan pening þá skiptir það ekki öllu máli. Þú étur bara ananas sem vex við hliðiná þér eða færð þér appelsínu úr næsta tré. Í versta falli dúndraru spjóti í andlitið á antilópupunni sem stendur við hliðiná þér og síðan steinheldur þú kjafti á meðan þú étur 30-50 kg af nýslátraðri steik.

Ef þú ert fátækur í hinum vestræna heimi, þá er staðan hins vegar töluvert verri. Ég bý eins og þið vitið í Danmörku og hér kostar allt peninga og ekkert má drepa með spjótum. Hér vex ekkert ætt nema í gróðurhúsum hinna ríku og spilltu sem eru umkringd með rafmagnsgirðingum svo háum að engin kemst yfir þær nema fuglinn fljúgandi. Dýralífið hér í miðri Danmörku er álíka mikið og kynlífið sem fylgir fjarsambandinu mínu. vissulega eru moldvörpur hér í bænum en það er vandasamt verk að grafa eftir þeim í helvítis mínus 13 gráðum. Ekki nóg með það en þá er ég fluttur “to the sub-urbs” og þarf að taka strætó í öll mín erindi. Strætóinn er einmitt ekki ókeypis og þeir taka ekki við íslenska klínkinu sem fyllir vasa næfurþunnu ZO-ON úlpunnar minnar, sem frýs í gegn þegar hitastigið sígur undir 0 gráðurnar. Það fá ekki allir gefins Jökla Parka eins og Balti.

“En átt þú ekki hjól, Einar?”, spyrja flestir. Jú mikið rétt, ég keypti hjól síðasta haust. Það hjól keypti ég af Nasískum skiptinema frá Frankfurt. Ég hafði ekki verið lengur en tvo daga í nýju íbúðinni eftir áramót þegar það hjól eyðilagðist á leið minni í skólann. Ég fékk mitt fyrsta brjálæðiskast í 9 mánuði og skildi það eftir niður í bæ.

Þið sem hafið fylgt bloggi mínu eftir eitthvað af viti þá hafið þið mögulega tekið eftir því að yfirleitt kemur vont til með að versna.

Höldum áfram…

En staðan er vissulega slæm þegar maðu er fastur í úthverfi, 7 km frá siðmenningu, of blankur til að taka strætó og úti er full kalt til að maður geti gengið í skinny jeans. Því engar á ég snjóbuxur. Þá er kannski bara fínt að vera heima í notalegu þrjátíu fermetrunum sínum og slaka á. En þá get ég bara slakað á liggjandi upp í rúmi því það er jú eina húsgagnið mitt. Þar sem mænan á mér sprakk til helvítis í sumar þá fæ ég stundum verki í bakið við að liggja of lengi. En það er ekkert mál, þá rölti ég stundum inná baðherbergi og tylli mér á klósettið ekki til að hægja mér, heldur einungis vegna þess að klósettið er það næsta sem kemst sæti í íbúðinni.En svo þegar ég loksins reyni að hægja mér þá kemur ekkert út því ég hef ekki borðað neinn mat síðustu vikur. Gleymdi ég að minnast á það?

Það er nú reyndar ekki alveg rétt. Ég á einhver 2 kg af frosnum kjúkling og sennilega eitt og hálft kíló af hrísgrjónum inn í skáp. Ofan á það á ég 2 pakka af haframjöli og eina túnfisksdós. Þetta er ágætis magn af mat og með vott af skynsemi ætti að vera hægt að láta hann duga í rúma viku ef ekki 10 daga. Vissulega myndi ég þurfa að borða undir grunnþörf en kæmist þó lífs af.
Ekki get ég bakað kjúklinginn í ofni því hér er engan slíkan að finna. Sömuleiðis hef ég engan örbylgjuofn en helluborðið hef ég þó. Ég var stoltur af sjálfum mér þegar ég sá helluborðið fyrst um sinn, því þrátt fyrir að ég ætti ekki margt, þá átti ég pönnu. Sem ég keypti mér fyrir síðustu LÍN-aura síðustu annar.
Mikið var ég því óánægður með lífið þegar ég komst að því að ég er með nýjasta helluborðið frá Electrolux sem eingöngu er hægt að hita með sérsmíðuðum og rándýrum Electrolux-Induction pottum og pönnum sem einungis kvótadrengir og fegurðardrottningar eiga fyrir.
Ég prufaði um daginn að fá mér haragraut þar sem ég lét vatn renna í gegnum kaffivélina og síðan hellti ég því útá haframjölið í skálina sem Ragnar vinur minn gaf mér um daginn. Það leit vel út og loksins stefndi í að ég fengi heitan mat en þá mundi ég það að ég á enga skeið. Ég á bara hnífa og gaffla, sem ég neyddist til að stela úr mötuneytinu í skólanum. Ég borðaði grautinn því með gaffli og hann bragðaðist nokkuð vel. Fyrir utan kaffibaunirnar sem ég spýtti útúr mér í öðrum hverjum bita.

Ég er sem sagt í prófum þar til um miðjan febrúar og LÍN borgar mér ekki fyrr en ég fæ út úr þeim. Ég er ekki mikið fyrir það að birta blogg um helgar en ég ákvað að gera það núna áður en þeir taka netið af íbúðinni.

Þetta gæti verið mitt síðasta blogg sem ég skrifa gjaldfrjálst. Ég held ég komi til með að rukka fyrir þau í framtíðinni.

Ps. Það eru margir búnir að benda mér á það að ef þeir opna bloggið mitt á Facebook í snjallsíma að þá opnist það asnalega og það sé erfitt að lesa það. Ef þið eruð að lenda í slíku viljið þið þá muna það að það er alltaf einhver þarna úti sem hefur það verr en þið.

 

Leave a Reply