Helvítis nýbúi – þú mátt ekki vinna í þessu landi!

Nú fer að líða að jólum. Það vita það ekki margir en það er þó satt.
Ég hef nú aldrei verið mikið jólabarn og ég nenni ekki að byrja á því núna þegar ég er kominn þetta langt í gegnum ævina. Vissulega grenjaði ég mikið sem barn þegar ég fékk ekki að opna eina gjöf fyrir matinn. Mamma og Gummi bönnuðu mér það venjulega en amma leyfði sínum alltaf að opna einn lítinn og góðan. Litlir pakkar eru auðvitað drasl eins og allir vita og því fór ég aftur að grenja og vildi opna stóran pakka.

En núna í seinni tíð fæ ég venjulega bara 3 pakka og þeir eru yfirleitt allir Puma rakspíri. Ég er ekki eins og allar húsmæðurnar sem eyði öllum desember í að baka kökur og syngja jólalög. Ég viðurkenni það samt að í þetta sinn er maður kominn í pínulítinn gír, verandi staddur í fjarlægu landi, lengst út í heimi, langt frá fjölskyldu og vinum. Ég er umvafinn ókunnugu fólki og óvinum og það kemur manni alltaf í góðan jólgír. Ég fékk pínu heimþrá í gær í fyrsta sinn en seinna um kvöldið fór ég niður í þvottahús og tók fötin mín úr þurrkaranum. Ég tók þau aðeins of snemma út og þau voru og eru ennþá öll rök, eiginlega bara blaut – og það var þá sem ég mundi að heima á hótel mömmu fæ ég fötin mín alltaf rök úr þvottinum og hef fengið síðan ég var 14 ára. Þegar ég vogaði mér einn dag sem unglingur að kvarta við mömmu vegna þessa þá sagði hún mér að þetta myndi þorna í skápnum en þegar ég mótmælti því þá tjáði hún mér hvað rafmagn var dýrt og að við tilheyrðum millistéttinni. Við gætum ekki verið að klæða okkur í skrjáfaþurr föt alla daga  eins og kóngafólk og keisarar.

En talandi um ömurlega læknisþjónustu á Íslandi.

Ég ákvað að hringja í læknirinn minn, Asian Peter, í dag í von um að fá tíma í vikunni. Hann sagði “Gamli, geturu verið hér eftir 40 mín?” Hann sagði það reyndar á dönsku sem hljóðaði “Gamle, kan du kom til min i en 40 minutter?”
Ef þetta hefði verið á Íslandi hefði þetta tekið tvær vikur. Reyndar hefði það bara tekið sólarhring ef ég væri búinn að vera hjartveikur í 16 ár eins og Sigurður Jóhansson lenti í á dögunum. Ég hef sagt það áður, þetta er vanhæf ríkistjórn. Það vita það allir að Jóhanna Sig er á bakvið tjöldin að toga í spotta eins og túrtappaþjófur. Réttast væri að flengja hana. Og líka Sigmund Davíð, hann er alltaf að fá að fara framfyrir í hjartaþræðingu því hann étur svo mikið af kökum.
Þetta átti nú ekki að verða pólitískt blogg en stundum gleymi ég mér því ég er svo pólitískur í mér.
En já Asian Peter sagði mér það að ég væri mjög fatlaður í bakinu og skrifaði loksins uppá Kíropraktor ávísun á strákinn. Hann sagði mér það síðan að við myndum hittast einu sinni í janúar og svo væri hann að flytja til Köben. Ég er núna að skoða möguleikan á skiptinámi í Kaupmannahöfn á næstu önn. Eftir að hafa haft asískan lækni að þá er erfitt að fara aftur í hvítan. Eins og ég hef alltaf sagt; “Once your doctor is asian you don’t go back to caucasian”.

Síðan er Rannveig systir að koma í heimsókn hingað á laugardaginn til að hjálpa mér að gera lokaverkefnið mitt í tölfræði. Hún er góð að gera skólaverkefni og ég er því að “choppera” hana inn til að aðstoða, “because that’s what families do”, eða eins og danskurinn segir “Fordi det er hvad familier gør”.
En síðan er tölvan mín að gefast upp. Það er mér mikið hjartans mál enda hef ég átt hana í 5 ár. Þannig að ef þið viljið fá fleiri blogg þá verðið þið að gefa mér pening svo ég geti keypt nýja tölvu.
Það heyrist mikið býfluguhljóð úr henni og ég er búinn að opna hana og athuga hvort það sé býfluga inn í henni en svo er ekki þannig að þetta er ákveðin pattstaða sem ég er í.

Ennþá er ég að leita mér að vinnu til að stunda með náminu en Daninn er helvítis nasisti þegar kemur að því að ráða inn íslenskumælandi menn. Daninn hefur lengi vel hatað okkur Íslendinga því að við erum með flottari fána en þau og við kunnum að segja “R”. Það er ekki einungis velmegun og góðæri hérna í Danmörkunni heldur en samfélagið fullt af þjóðernissinnum sem hata nýbúa af ástríðu. Sem minnir mig á lagið með Bubba sem hann samdi um nýbúa. Þið vitið hvaða lag ég á við.
“Er nauðsynlegt að skjóta þá?” Það er mitt uppáhalds lag þessi misserin því ég er núna nýbúi í mjög svo ókunnugu landi en mér persónulega finnst ekki nauðsynlegt að láta skjóta okkur.
En ég kem bráðum til Íslands, nánar tiltekið þann 17.des. Það er fínt að koma heim viku fyrir jólin svo maður verði laus við allt jet-lag og búinn að venjast tímamismuninum og svona.

En jæja, ég ætla að henda öllum fötunum mínum aftur í þurrkarann því ég er orðinn fullorðinn og má setja fötin tvisvar í þurrkarann og það getur engin skammað mig.

Leave a Reply