Yin og Yang og aðstæður heimiliskatta

“It’s been a while”, eins og þeir segja.

Mér fannst einhvern veginn eins og það væri stutt síðan ég hefði bloggað. En “Time flies when you’re a piece of shit” eins og ég hef alltaf sagt.
Eins og þið takið eftir að þá nota ég ensku meira og meira í hvert sinn sem ég blogga enda er ég að verða mjög international. Ég er einnig farinn að tala dönskuna svolítið en það hefur þó ekki gengið sem skyldi. Yfirleitt er hlegið að mér en í gegnum ævina hef ég vanist því. Ég er með þykkt bak, bæði sem máltæki og í formi vöðva.

Ég fékk niðurstöður frá lækni í vikunni. Það er allskonar vesen í gangi með bakið og hálsinn á mér en ég nenni ekki út í einhver details hér enda er þetta blogg að breytast í einhverskonar lækna-dagbók sem er auðvitað frekar grillað. En ég á að fara í sneiðmyndatöku í þessari viku og eftir það get ég byrjað hjá kírópraktor og loksins verið ekki lengur fatlaður. Að minnsta kosti minna fatlaður. (Tókuð þið eftir því að nú segi ég “Að minnsta kosti” en ekki “Alla vena”, af augljósum ástæðum)
Ég keypti mér hjól í síðustu viku. Ég keypti það af þýskum peyja sem býr í næsta húsi á skít og kanil. Mér tókst að brjóta það á degi 2 og í eitt skiptið datt keðjan af á meðan ég var standandi að hjóla eins og gæji og ég datt fram fyrir hjólið og inn í runna. Ég keypti mér ekki hjálm vegna þess að ég tek almennt slæmar ákvarðanir. En engu að síður gott fyrir mig að eiga núna hjól.

En það eru ekki bara góðar fréttir af mér. Þvi fyrir hvert Yin er eitt stykki Yang. Ég mætti einmitt einu góðu Yangi áðan þegar ég tók eftir því að vaskurinn í eldhúsinu lekur hjá mér. Þar sem ég er svokallaður þúsund þjalasmiður þá lagaði ég það með teipi. Teipið er vissulega ekki vænlegasti kosturinn í stöðunni en ég flyt úr þessari íbúð eftir 45 daga og þetta ætti að halda í þann tíma og ef ekki þá hef ég ákveðið að athuga með stöðuna á teipinu fjórða hvern dag.

Eftir 45 daga einmitt kem ég til Íslands, en þá er 17.des, fyrir þá sem ekki ráða við hugareikning. Reyndar er líka 17.des eftir 45 daga hjá okkur sem kunnum hugareikning. Ég er búinn að vera í strögnum online stærðfræði-fjarkennslutímum frá Rannveigu systur. Enda er hún hámenntaður verkfræðingur sem getur meðal annars reiknað út burðarþol á brú. Mikið held ég að það sé góður kostur að hafa.
En ég þarf stundum á aðstoð hennar að halda þar sem stærðfræðikennarinn minn er gamall seggur sem ætlaði sér að hætta kennslu í fyrra, en var sannfærður af skólanum um að taka eitt ár í viðbót, og skilar gremjan sér vel til okkur sem sitjum tímana.

Ég lenti í því í síðustu viku að félagi minn sem sat við hliðna á mér bað mig um að opna munninn. Ég spurði hann hvers vegna og hann tjáði mér þá að ég andaði svo hátt. Ákveðinn skellur, hugsaði ég en hann og tveir vinir hans hlógu vel áður en ég bauð þeim fjölskyldutilboð af því að steinhalda kjafti sem þeir þáðu um leið. Án þess að þeir væru þess varir tók ég ábendinguna hans til greina og áttaði mig á því að kannski þyrfti ég að bæta inn cardio í mína annars ströngu æfingaáætlun. Nú þegar er ég byrjaður að hjóla hægri, vinstri og beint áfram en einnig fór ég út að skokka í kvöld, eftir æfingu. Ekki bara vonast ég eftir að komast í betra þol-form heldur get ég vonandi byrjað að anda lægra svo ég ónáði nú ekki nemendur í kringum mig.

Þegar ég mæti aftur til Danmerkur þann 4. janúar þá býður mín brakandi fersk íbúð í hinum enda bæjarins. Það er íbúð sem lítur vel út á pappírunum og er ódýrari en sú sem ég bý í núna. Einnig skilst mér að þar megi hafa ketti og því gætu draumar móður minnar ræst og Bíbí og Keilumestarinn gætu komið með pabba sínum til útlanda. Þar sem læknisþjónustan er ókeypis hérna í Danmörku, geri ég ráð fyrir að dýralæknaþjónustan sé það líka. Það þýðir að ég þarf ekki lengur að kaupa pilluna handa þeim. Þær eru báðar læður, þrátt fyrir að Svava frænka hafi lofað mér því að annar væri fress þegar ég þáði að eiga kisurnar tvær. Síðar kom í ljós að Keilumeistarinn er kona og hef ég alla tíð síðan þurft að eyða 4500 kr í kisupillur á hverjum 6 mánuðum, í staðinn fyrir 4500 árlega sem setti auðvitað fjármálin á hliðina. Ég fór þó ekki að grenja enda er heilsa Bíbí og Kela mér mjög mikilvæg og alltaf í forgangi.

Margir hafa bent mér á að láta taka þær úr sambandi en það er töluvert dýrara að láta gelda læðu en fress, þrátt fyrir að mér hafi verið boðin góður “systraafsláttur” þá ákvað ég að standa fastur á mínu og gefa þeim pilluna frekar. Einnig þykir mér vænt um kisurnar mínar og mig langar ekki að láta skera leggöngin úr þeim. Mynduð þið vilja það? Segjum að það væri eitthvað tröll sem ætti ykkur, svo kæmir þú bara heim einn daginn eftir vinnu á Olís eða eitthvað og þá ákveður tröllið að rífa af þér tillann eða eggjastokkana bara til að þú verðir aðeins meira þæg/ur? Hélt ekki. Stöðvum geldingu katta.
Vitið þið hvað er mesta snilld í heimi? Að eiga kettlinga. Það er staðfest í einni rannsókn sem ég gerði aldrei.
Núna eru “the haters” að segja “En hvað ef við getum ekki gefið alla kettlingana og þurfum að láta lóga þeim?” í fyrsta lagi þá “þarft” þú aldrei að láta lóga þeim. Ertu að segja mér það að það er ekki pláss heima hjá þér fyrir einn kött í viðbót? Eða tvo? Veistu hvað meðal-köttur er stór? Hann er 23cm á lengd og 14cm á hæð. Flatarmálið er lengd sinnum breidd sem er 322cm. Og ef þú reiknar flatarmál katta sem þríhyrning þá bara hendiru í gamla góða Pýþagoras.
Hættið að gelda ketti bara vegna þess að þið kunnið ekki að reikna út flatarmál katta eða tímið ekki að leyfa þeim að taka smá pláss í húsinu ykkar.
Ef þið hafið áhyggjur af auknum kostnaði vegna fæðu og kisupillna, borðaðu þá bara 300 kcals undir grunnþörf og þá áttu fyrir því. Sem og þú grennist á því.
Þannig að spurningin er á endanum einföld.
Viltu vera með tussubumbu og eiga í mesta lagi einn geldan, dapran kött eða vera SHREDDED og eiga ketti sem eru ekki þunglyndir og kunna að ríða?

Sjáumst samt

One comment

  1. Einar, ekki veit ég hvað hún systir þín ætti að geta kennt þér í stærðfræði eða flatarmálsreikningi, mér sýnist þú algerlega vera meðidda. kv Arna

Leave a Reply