06: Erfiðasta sem ég hef upplifað

Ég vil byrja á að þakka aftur fyrir mig. 1000 heimsókna múrinn var rofinn í dag. Takk fyrir að nenna að lesa vitleysuna í mér og hvað þá að nenna að deila henni. Höldum áfram…

Ég veit ekki hvort þið vitið það en í þessu blog challenge-i er ég að fara eftir fyrirfram ákveðnum reglum og ég sé á hverjum degi ákveðið viðfangsefni sem á að fjalla um. Í dag er það sem sagt “The hardest thing you’ve ever experienced”.

Þegar ég fer að hugsa um það þá átta ég mig á því að ég hef ekki átt mjög erfiða ævi. Vissulega verið ups and downs, en ekkert mjög dramatískt hefur komið fyrir mig. Reyndar var ég einu sinni á leiðinni á ball og þá fór sinnep í bindið mitt. Það var heví dramatískt. En margir þarna úti hafa lent í bílslysum, misnotkun, skilnaði og fleira og hver er ég að fara að bera mín vandamál við slík atvik. Ég ætla í staðinn að nefna nokkrar sögur úr lífi mínu sem voru hræðilegir fyrir mig á sínum tíma.

Þegar mamma lógaði kettinum mínum 

Við höfum alltaf átt ketti. Eða alveg síðan við fengum okkar fyrsta kött, Bröndu. Ég var þá í 1.bekk. Branda var alltaf nojjuð og ekki skemmtilegasti kötturinn í bænum. En hún eignaðist einhverja 90 kettlinga og einn af þeim hét Blakkur. Þessi saga er um hann.
Blakkur var kötturinn minn. Alltaf þegar kötturinn okkar eignaðist kettlinga þá eignuðu krakkarnir sér einn kött og hann var minn. Svo var það alltaf hálfgert lottó um hvaða köttur myndi fá að lifa því mamma leyfði okkur alltaf bara að fá einn nýjan kött í einu. ImageÞegar Blakkur fæddist, fæddust minnir mig 4 aðrir. Blakkur var með allar tölur réttar í þessari umferð og fékk að lifa.
Við bjuggum í Reykjavík þegar við eignuðumst hann og hann flutti með okkur til Patreksfjarðar og svo síðar meir til Húsavíkur. Í öllum þessum flutnings hamagangi var maður í allskonar veseni, nýr í skólanum, kynnast nýjum vinum, kveðja gamla vini, reyna að verða ekki nauðgað í nýja bænum og svo mætti lengi telja. En þrátt fyrir öll vandræðin gat ég alltaf treyst á Blakk. Hann og ég fórum alltaf út í göngutúr, einu sinni í ól en hann lagðist þá bara niður. Hann var nú ekki hrifin af ólinni greyjið kallinn. Þannig að eftir það fórum við í göngutúrana þannig að hann hljóp í eina áttina og ég labbaði í hina.
Eftir að við fluttum á Húsavík eignuðumst við fleiri kisur og þegar mest var áttum við 6 kvikindi. Einn hræðilegan sunnudagsmorgun vaknaði ég við öskur í Rannveigu.
Þá voru mamma og Gummi búin að taka alla kettina og setja í kassa og voru að fara með þá til dýralæknis og láta lóga þeim. Ég og Rannveig börðumst við þau fyrir lífi kattana en þar sem ég var 10 ára og hún 12 þá kannski var aldrei séns.

Ég fór inn í herbergið mitt til að grenja í friði og syrgja minn gamla vin. En svo nokkrum klukkutímum seinna sá ég Blakk fyrir utan herbergisgluggan minn. Þá hafði hann klórað Gumma mjög illa í hendina hjá dýralækninum og náð að flýja. Ég opnaði gluggan og hann hoppaði inn. Eftir þetta virtu mamma og Gummi Blakk og hann fékk að lifa áfram í 2 eða 3 ár.

Eitt sumar bjuggum við á Mývatni þar sem við rákum veitingastað. Ég man svo að einn dag erum við á leið aftur á Húsavík í lok sumars og þá vissi ég að það væri planið að fá hund. Þegar við keyrðum inná Húsavík spurði ég mömmu “Blakkur er dáinn, er það ekki?”…

“Ójú, og nú eigum við sko hund!! er það ekki gaman og stuð?”

Þetta var 3 ára gamall hundur með rauð augu sem einhver annar vildi ekki eiga. Við áttum hann í 2 vikur og síðan gáfum við hann. Og þá var ekki hægt að fá Blakk aftur.

Þegar fiskabúrið mitt lak

Spólum til baka þegar ég var í fyrsta bekk. Þá langaði mig í fiskabúr og fiska inn í það. Mamma tók það ekki í mál. En Amma hins vegar gúdderaði það og gaf mér tvo pínulitla fiska í 7 ára afmælisgjöf. Og fiskabúr með og mat handa þeim. Ó hvað hamingjan var mikil.
Ég hugsaði vel um þá og gaf þeim mikið að borða og eyddi öllum mínum nammi peningum í að hjóla útí kringlu og kaupa skraut handa þeim í búrið sitt. Ég var búinn að kaupa allskonar gróður og sjóræningja tunnu sem þeir gætu synt í gegnum, því eins og við öll vitum elska þessir fiskar að synda í gegnum sjóræningja dót. Ég keypti líka ryksugu fisk svo að búrið væri alltaf hreint. Nokkrum vikum seinna tók ég eftir að á eftir konufisknum, sem hét Lísa, voru alltaf einhverjir 6 litlir punktar. Ég fattaði seinna meir að þetta væru lítil fiskabörn! Nú átti ég 8 fiska og aldrei verið hamingjusamari. Stuttu síðar dó Lísa skyndilega. Eflaust vegna þess að frá því að börnin komu í heiminn hafði hún verið með 10 sentimetra naflastreng/leg hangandi út úr sér. Ég jarðaði Lísu og hélt lífinu áfram.
Fiskarnir mínir sýndu enga iðrun og stunduðu sifjaspell eins og þeir fengju borgað fyrir það. Ég man þegar ég taldi þá einn daginn voru þeir 64. Ég man það því það var í fyrsta skipti sem ég náði að telja uppá 64. Ég var á sama tíma að sýna miklar framfarir í námi, á góðu róli í öðrum bekk.
Ég sem sagt var orðinn mikill gullfiskabóndi og lífið lék við mig.
Það sem fylgdi sögunni ekki er að í fjölskyldunni minni tíðkast mjög mikið að fara alltaf ódýrustu leiðina. Ef eitthvað bilar, þá er ekki keypt nýtt, og hlutirnir eru heldur ekki lagaðir. Þeir eru bara látnir vera.
En það sem þið vitið ekki er að amma fékk fiskabúrið á 50% afslætti þar sem það var gat á því. Amma sá enga ástæðu til að borga fullt verð fyrir öruggt búr og skellti sér á tilboðið. Einsi frændi var fenginn til að kítta uppí gatið og svo til hamingju með afmælið Einar minn.

Einn hræðilegan dag kom ég heim úr skólanum, valhoppaði niður í kjallara þar sem herbergið mitt var, opnaði hurðina og við mér blasti mín versta martröð. Búrið hafði lekið  svo mikið að það var einungis 1 sentímetri eftir að vatni þar sem allir mínir fiskar syntu um í öngþveiti og biðu þess að deyja.

Ég rak upp skerandi hátt píkuskræki sem var rætt í götugrillum næstu árin. Við það kom amma hlaupandi, eða réttara sagt, labbandi hratt, og hjálpaði mér að ferma fiskana yfir í allskonar bala og krukkur. Þennan dag dó engin og amma sýndi miklu hetjudyggð við að bjarga fiskunum. Auðvitað hafði ég fjárfest í háf til að ná fiskunum upp úr því ég þorði ekki að snerta þá. Amma byrjaði að taka þá upp einn og einn með háfnum “Amma það er engin tími!” hrópaði ég. “Það er satt Einar, I’m going in” svaraði Amma…Image Ég horfði á ömmu mína bjarga öllum fiskunum mínum með berum höndum þennan dag. Og fyrir það verð ég alltaf þakklátur.
Seinan var búrið lagað, auðvitað með meira kítti, því enn þótti ekki ástæða í að kaupa nýtt búr, þrátt fyrir hörð mótmæli mín á fjölskyldufundum.

Þegar ég gleypti sápukúlu

Eins og ég hef sagt ykkur var ég mjög áhrifagjarn sem barn og því fylgdi líka að ég var auðtrúa. Rannveig systir laug því einn dag að mér að ef maður gleypti sápu þá myndi maður deyja. Þess vegna skildi ég ekki af hverju strangir foreldrar þvoðu munninn á dónalegum börnum sínum með sápu. En jæja, það var þeirra vandamál… að vilja drepa börnin sín. Mamma mín gerði ekkert svoleðis. Því hún var alltaf úti að spila bingó á meðan við systkinin elduðum okkur Chigago Town.

Við bjuggum í Meðalholti í Reykjavík. Í næsta stigagani við okkur bjó Tinna bekkjasystir mín og í næsta húsi bjó önnur sem hét Kristín. Einn góðan sumardag ákváðum við Rannveig, ásamt Tinnu og Kristínu að gera eitthvað klikkað og fórum út til að blása sápukúlur. Ég varð full ákafur og endaði á að gleypa eina sápukúluna. Um leið vissi ég að ég ætti ekki mikið eftir. Ég sagði ekkert við stelpurnar en afsakaði mig fljótt og fór heim til að skrifa kveðjubréf til fjölskyldunnar minnar.
“Ég gleypti óvart einu sápukúlu áðan og er núna dáinn. Fyrirgefðu mamma að ég passaði mig ekki betur”

En svo leið dagurinn og ennþá var ég ekki dáinn. Seinna um kvöldið henti ég miðanum þar sem ég hafði klárlega svindlað á dauðanum.
Ég var ennþá lifandi og á þeim tíma eini maðurinn sem hafði borðað sápu og ekki dáið.

Sjáumst samt

Leave a Reply